Lög og reglur FHIHEITI OG HLUTVERK FÉLAGSINS

1. gr.

Heiti félagsins er Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, skammstafað fhi, 
og er aðsetur þess í Reykjavík.

2. gr.

Hlutverk félagsins er:

- að vera málsvari húsgagna- og innanhússarkitekta
- að auka þekkingu og skilning á starfi þeirra
- að efla samkennd félagsmanna
- að gæta hagsmuna félagsmanna
- að efla tengsl við önnur félög tengd starfssviði húsgagna- og innanhússarkitekta, 
innanlands sem utan
- að stuðla að bættum híbýlaháttum og eflingu hönnunar


FÉLAGAR, SKYLDUR OG RÉTTINDI

3. gr.

Félagsaðild eiga aðalfélagar, aukafélagar og heiðursfélagar:

a. Aðalfélagar geta þeir orðið sem lokið hafa fullnaðarprófi í húsgagna- og/eða innanhússarkitektúr frá
skólum sem félagið viðurkennir. Viðurkenning félagsins byggist á reglum um mat á umsóknum um leyfi
til að kalla sig húsgagna og/eða innanhússarkitekt. Aðalfélagar skulu hafa lögverndað starfsheiti.

b. Aukafélagar geta þeir orðið sem stunda nám við skóla sem félagið viðurkennir
eða starfa erlendis.

c. Aðalfundur getur að tillögu félagsstjórnar kjörið heiðursfélaga; menn sem skapað
hafa mikilverð verk á sviði hönnunar, eða leyst af hendi mikilvæg störf í þágu
félagsins. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða samþykki aðalfundarins.

Allir félagar skulu skráðir í félagaskrá sem stjórn félagsins varðveitir.

4. gr.

Aðalfélagar skulu kenna sig við félagið með því að nota skammstöfun þess
með starfsheiti.

5. gr.

Allir félagsmenn hafa málfrelsi og tillögurétt í félaginu, en kjörgengi og atkvæðisrétt
hafa aðalfélagar og heiðursfélagar.

6. gr.

Félagsmenn skulu rækta með sér góðan félagsanda og taka tillit til stéttarfélaga
sinna og starfsheiðurs þeirra, hvort heldur í samkeppni við þá eða samstarfi. 
Félagsmönnum er skylt að virða lög félagsins og aðrar reglur þess.


INNGANGA Í FÉLAGIÐ, ÚRSÖGN OG BROTTVIKNING

7. gr.

Sá sem óskar eftir að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn
ásamt staðfestingu á að viðkomandi hafi lokið fullnaðarprófi frá viðurkenndum
skóla. Skal inntökubeiðni borin upp á fyrsta stjórnarfundi eftir móttöku hennar. 
Stjórn tilkynnir umsækjanda skriflega um niðurstöður fundarins.

8. gr.

Óski félagsmaður eftir að ganga úr félaginu skal hann tilkynna stjórn félagsins
úrsögnina skriflega. Skal hann þá vera skuldlaus við félagið. Úrsögnin tekur gildi
við móttöku úrsagnartilkynningar.

9. gr.

Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld í tvö ár samfleytt skal stjórn félagsins
víkja honum úr félaginu.


AÐALFUNDUR OG FÉLAGSFUNDIR

10. gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Milli funda fara
félagsstjórn og nefndir með stjórn þess og framkvæmd mála.

11. gr.

Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert. Boða skal til fundarins með 
minnst 15 daga fyrirvara. Í fundarboði skal auglýsa eftir tillögum til aðalfundar. 
Stjórn ber að senda dagskrá fundarins og þær tillögur sem fram kunna að  
koma til félagsmanna minnst 7 dögum fyrir áður boðaðan fund. 
Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

12. gr.

Á aðalfundi skal taka fyrir eftirfarandi mál:

1. Skýrslu stjórnar félagsins um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári
2. Skýrslur nefnda félagsins
3. Endurskoðaða reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár
4. Ákvörðun árgjalds, gjalddaga og reikningsskoðanda
5. Kjör stjórnar og varamanna
6. Kjör nefnda til eins árs
7. Lagabreytingar
8. Önnur mál

13. gr.

Aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann rannsakar í fundarbyrjun hvort löglega
hafi verið boðað til fundarins og lýsir yfir hvort svo sé. Atkvæðagreiðsla á aðalfundum
er samkvæmt ákvörðun fundarstjóra. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla jafnan fara
fram séu fleiri en einn í framboði eða ef einhver fundarmanna krefst þess. 
Félagsmaður getur veitt öðrum atkvæðisbærum félagsmanni skriflegt umboð til að 
fara með atkvæði sitt á aðalfundi.

14. gr.

Kosinn skal ritari aðalfundar sem skráir það sem gerist á fundinum, einkum allar
samþykktir og ákvarðarnir. Fundarstjóri og fundarritari skulu síðan staðfesta
fundargerðirnar með undirskrift sinni. Teljast þær þá full sönnun þess sem
gerðist á fundinum.

15. gr.

Fundargerð aðalfundar ásamt ársskýrslu skal senda félagsmönnum innan
14 daga frá aðalfundi.

16. gr.

Félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins telur þurfa eða ef ¼ hluti félagsmanna
krefst þess skriflega og tilgreinir ástæður í fundarbeiðni. Skal stjórnin þá boða til
fundar innan 14 daga frá því beiðnin var lögð fram. Formaður félagsstjórnar eða
annar stjórnarmaður stýrir félagsfundum.

17. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að bjóða innlendum og erlendum aðilum sem vinna að 
skyldum málefnum og félagið að sitja fundi félagsins sem gestir.


STJÓRN OG NEFNDIR

18. gr.

Stjórn félagsins er kosin til eins árs í senn. Stjórnina skipa formaður, ritari og
gjaldkeri. Formaður er kosinn í sérstakri kosningu en kjörin stjórn skiptir að 
öðru leyti með sér störfum. Ekki má kjósa sama mann til formanns oftar en
þrisvar í röð. Kjósa skal einn mann til vara.


19 . gr.

Stjórnin heldur fundi eftir þörfum. Skýrslu um stjórnarfundi og ákvarðanir
stjórnarinnar skal færa í fundargerðir. Formaður kallar saman stjórnarfundi
og stýrir þeim. Ritari skráir gerðir stjórnarinnar. Gjaldkeri varðveitir sjóð félagsins, 
innheimtir félagsgjöld og annast reikningshald.


20. gr.

Aðalfundur og stjórn félagsins geta ef ástæða þykir til kosið nefndir eða
starfshópa til að annast einstök verkefni í þágu félagsins. Hlutverk og starfssvið 
slíkra nefnda og starfshópa er ákveðið af aðalfundi eða stjórn félagsins.

Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna réttindanefnd. Réttindanefndin annast alla réttindabaráttu
félagsins. Einnig skal réttindanefndin sjá um og svara ráðuneyti umsóknum um lögverndað starfsheiti.


REIKNINGSÁR OG FÉLAGSGJÖLD

21. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

22. gr.

Félagsgjöld eru árgjöld sem renna í félagssjóð. Árgjald og gjalddagar ákveðast á 
aðalfundi fyrir ár hvert. Aðalfélagar skulu greiða fullt árgjald, en aukafélagar
fjórðung þess. Nýir félagar greiða félagsgjöld frá og með þeim degi sem umsókn
þeirra er samþykkt af stjórn félagsins. Heiðursfélagar og félagsmenn sem
eru 65 ára og eldri eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda.

23. gr.

Ársreikninga skal yfirfara og samþykkja af endurskoðanda fyrir aðalfund ár hvert.
Ársreikningar skulu einnig rannsakaðir af reikningsskoðanda sem kosinn er úr
röðum félagsmanna á aðalfundi.


GERÐARDÓMUR

24. gr.

Rísi ágreiningur milli félagsmanna út af starfi þeirra eða starfsemi á sviði hönnunar
getur málsaðili borið málið undir þriggja manna gerðardóm til fullnaðarúrskurðar. 
Hvor málsaðili um sig skal tilnefna einn gerðardómsmann úr hópi félagsmanna en
félagsstjórn skipar oddamann. Félagið getur sett fastar reglur um störf slíks
gerðardóms sem ella setur sér sjálfur starfsreglur. Ávallt skal gæta jafnræðis
með málsaðilum.


LAGABREYTINGAR

26. gr.

Lögum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði
2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni.

Lögum var síðast breytt á aðalfundi félagsins þann 11.júní 2009 - sjá; tillögu til lagabreytinga 2009