Almennt

Nám til lögbundinna starfsréttinda tekur að jafnaði lágmark 5 ár. Almennt þarf að ljúka 300 ECTS-einingum, sem skiptist í 180 ECTS-eininga BA-nám og 120 ECTS eininga MA­ nám frá skóla sem hefur verið viðurkenndur af lögbærum stjórnvöldum í viðkomandi ríki.

Þar sem námsgráða leiðir af skemmra námi skal umsækjandi auk hennar hafa aflað sér starfsreynslu hjá aðila sem hefur löggildingu til að nota það starfsheiti sem sótt er um, eða réttindi til að leggja fyrir byggingaryfirvöld uppdrætti á fagsviði viðkomandi umsækjanda, sbr. eftirfarandi:

  1. Eftir fjögurra ára nám sem samanstendur af minnst 240 ECTS einingum ásamt 12 mánaða starfsreynslu.

  2. Eftir þriggja ára nám sem samanstendur af minnst 180 ECTS einingum ásamt 42 mánaða starfsreynslu.

Þeir sem lokið hafa skemmra námi en að ofan greinir geta ekki fengið lög­gildingu til að nota starfsheitið húsgagna- eða innanhússarkitekt.

Hvað skal hafa í huga þegar nám er valið?

Skoða skal vandlega að námið sé viðurkennt bæði í námslandinu og
á Íslandi. Skólar geta haft afar mismunandi áherslur, sumir
eru einkaskólar sem ekki bjóða upp á viðurkennt nám og oft styttra og aðrir skólar jafnvel með sumar deildir innan skólans viðurkenndar og aðrar ekki. Vert er að huga að þessum atriðum áður en endanleg ákvörðun um skóla er tekin.

Gott er að setja sig í samband við skólann og ræða við nemendur hans ef þess er kostur. Margir skólar eru með opið hús fyrir væntanlega nemendur þar sem hægt er að skoða aðstöðu og ræða við kennara. Einnig getur verið gagnlegt að hafa samband við aðra Íslendinga sem sótt hafa nám í við­komandi skóla.

Nám á Íslandi

Nám í innanhússarkitektúr hefur ekki verið í boði á Íslandi, einungis er hægt að taka námið erlendis.

Löggilding starfsréttinda

Umsóknum um löggildingu starfsheitis skal skilað inn til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis Íslands. Frekari upplýsingar um umsóknarferli og meðferð umsókna má finna á vef Stjórnarráðs Íslands.

Löggilding hönnuða

Auk löggildingar starfsréttinda þarf að afla sérstakra réttinda til þess að leggja teikningar (séruppdrætti) fyrir hjá byggingarfulltrúa en til þess að fá slík réttindi þurfa innanhússarkitektar að hafa að baki nokkra starfsreynslu ásamt því að ljúka námskeiði með fullnægjandi hætti á vegum Mannvirkjastofnunar.

Nánari upplýsingar