10+ á Hönnunarmars

8e24c3bf762da1aa.jpg

Fhi kynnir 10+ húsgagnasýninguna  á HönnunarMars 2011

Húsgagnasýningin 10+ var fyrst haldin  á síðasta ári og vakti mikla athygli og ljóst er að hún er komin til að vera.  Fhi, félag húsgagna- og innanhússarkitekta, ákvað því að endurtaka leikinn með það að markmiði að gera enn betur en síðast. 

Þátttakendur eru úr mörgum hönnunarfélögum en einmitt það gerir sýninguna fjölbreytta og spennandi. Mikill kraftur og hugmyndaauðgi er í íslenskri húsgagnahönnun um þessar mundir og við kynnum til leiks það nýjasta . Þátttakendur eru  úr fagfélögum arkitekta, vöruhönnuða, innanhússarkitekta, leirlistar, grafískra hönnuða og textílhönnuða. 

Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (þá Félag húsgagnaarkitekta, fha) var stofnað árið 1955 og er þar með  elsta fagfélag hönnuða á Íslandi. Stofnfélagar fhi voru helstu frumkvöðlar í íslenskri húsgagnahönnun og húsgagnaframleiðslu. Fhi hefur mikla trú á íslenskri húsgagnaframleiðslu og á sér þá ósk að hún eflist og verði stór atvinnugrein. Markmið með 10+ húsgagnasýningunni er að kynna íslenska hönnun og hvetja til aukinnar framleiðslu á húsgögnum eftir íslenska hönnuði.  Saman getur íslensk hönnun og íslensk framleiðsla orðið nýskapandi hreyfiafl.

Sýningin er í Grandagarði 16

Sýningarstjóri: Dóra Hansen

Sýningarhönnuður: Ómar Sigurbergsson.

Hönnuður  sýningaskrár:  Elísabet Jónsdóttir

Stockholm Design Week

e0eee3cafd9af081.jpg

Á fjórða tug íslenskra hönnuða og arkitekta sýna verk sín á kaupstefnunni Stockholm Furniture Fair og hönnunarvikunni Stockholm Design Week sem hefjast í Stokkhólmi 7. febrúar nk. 

Kaupstefnan er ein af þeim stærstu í Evrópu og óteljandi hönnunarviðburðir glæða stræti Stokkhólms óvæntu lífi. Gríðarmörg tækifæri felast í markvissri þátttöku. 


Hönnunarmiðstöð Íslands varð þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að setja sýninguna
Icelandic Contemporary Design upp á Stockholm Furniture Fair en hún var hönnuð sem farandsýning til að kynna íslenska hönnun utan landssteinanna og opnaði fyrst á Listahátíð í Reykjavík 2009. Rúmlega tuttugu hönnuðir og arkitektar eiga verk á sýningunni. Ferðalag sýningarinnar er liður í að færa íslenska hönnunarsenu nær þeirri skandinavísku sem þekkt er að verðleikum og viðurkennd um heim allan. 

Auk sýningarinnar er að finna á kaupstefnunni hönnun frá íslensku fyrirtækjunum Arkiteó,FurniBloomLighthouse og Sýrusson

Aurum opnar sýningu á skartgripum og borðbúnaði í hinu smáa en virta hönnunargallerýi, Gallery Pascale og iðnhönnuðurinn Sigga Heimis sem nýverið sýndi verk sín í Hönnunarsafni Íslands, tekur þátt í samsýningu um 20 virtra hönnuða íBilogiska Museet

Ískaldir jöklar, lindavatn og hreinn krækiberjasafi stefna nú hraðbyri til Svíaveldis og eru framlag Brugghúsins Mjöðurs í Stykkishólmi sem ásamt Icelandic Water Holdings og Íslenskri hollustu munu gefa tóninn í móttökum sem sendiherra Íslands í Stokkhólmi býður til í samstarfi við Hönnunarmiðstöð, við tvö tækifæri. 

Móttökunum er ætlað að styrkja það tenglsanet sem þegar hefur verið unnið að undanfarin ár og til að mynda ný sambönd sem nýst geta íslensku hönnunarsenunni hvað varðar útflutning, umfjöllun og samstarf. 

Allar nánari upplýsingar um sýningarnar og viðburðina veitir Kristín Gunnarsdóttir kristin@honnunarmidstod.is í síma 771 2200 og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar í síma 699 3600.

Úrslit hönnunarsamkeppni Hörpu tónlistarhúss og Portus

Fimmtudaginn 25. nóvember voru tilkynnt úrslit í hönnunarsamkeppni um húsgögn í almenningsrými í Hörpu. Samkeppnin var opin íslenskum hönnuðum og arkitektum og var haldin í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. 

Verðlaunin, að verðmæti ein milljón króna, hrepptu þær Kristín Aldan Guðmundsdóttir og Helga Sigurbjarnadóttir sem eru báðar innanhúsarkitektar FHÍ. Skilyrði í samkeppninni var að húsgögnin yrðu framleidd hér á landi og samstarfsaðilar þeirra um framleiðslu húsgagnanna eru GÁ húsgögn, Stjörnustál, Pelco og Pólýhúðun. 

Helga  Sigurbjarnadóttir og Kristín Aldan Guðmundsdóttir við hlið vinningstillögunnar. Mynd: Hönnunarsafn Íslands

Helga  Sigurbjarnadóttir og Kristín Aldan Guðmundsdóttir við hlið vinningstillögunnar.
Mynd: Hönnunarsafn Íslands

Í umsögn frá dómnefnd kemur fram að vinningshugmyndin byggi á fágaðri og svipmikilli hugmynd og falli afar vel að sterkum karakter hússins með hreyfanlegum formum sem bjóða upp á margvíslega notkun. Styrkur tillögunar felist ekki síst í einfaldleika hennar og sveigjanleika. Form og efnistök sýni að tekið sé tillit til hins mikla fjölda sem muni fara um Hörpu og gefi auk þess létt og leikandi yfirbragð í almenningsrýmin þar sem gestir geti tyllt sér á fjölbreytileg húsgögnin jafnt að degi til sem á kvöldin. Hugsað sé fyrir öllum aldursflokkum, ólíkum þörfum eftir viðburðum og að flókin úrlausnarefni séu leyst á hagkvæman og aðlaðandi hátt. 

Verðlaunaafhendingin átti sér stað í Hörpu en húsið opnar í maí næstkomandi. 

Einnig fengu tvær tillögur til viðbótar sérstaka viðurkenningu. Sú fyrri var frá Dóru Hansen, Heiðu Elínu Jónsdóttur og Þóru Birnu Björnsdóttur innanhúsarkitektum FHÍ en tillagan þótti djörf og vönduð með spennandi vali lita og efna. Sú síðari var frá Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur og Oddgeir Þórðarsyni innanhúsarkitektum FHÍ hjá Go Form ehf en tillagan þótti glæsileg og bjóða upp á mikla möguleika með einföldum og afgerandi formum.  Athygli vekur að vinningstillögurnar eru allar unnar af félögum í FHÍ sem ber vott um hversu öflugir meðlimir félagsins eru.

Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður rekstrarfélagsins Ago sagði í ræðu sinni við afhendinguna í dag að það væri gleðilegt að sjá hinn mikla metnað og hugmyndaauðgi sem íslenskir hönnuðir byggju yfir og tillögurnar bæru vitni um. 

Alls tuttugu og þrjár tillögur bárust í samkeppnina en að henni var staðið af Eignarhaldsfélaginu Portus í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. 

Í dómnefnd sátu Osbjörn Jacobsen arkitekt frá Henning Larsen Architects, tilnefndur af Portusi, Soffía Valtýsdóttir, arkitekt frá Batteríinu, tilnefnd af Portusi, Katrin Ólína, hönnuður, frá Félagi vöruhönnuða tilnefnd af Hönnunarmiðstöð, Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaartikekt, frá Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð og Þórunn Sigurðadóttir stjórnarformaður Ago, tilnefnd af Portusi sem gegnir formennsku. 

Hægt verður að skoða allar tillögurnar á næstunni á sýningu í Hönnunarsafni Íslands.

Síðbúin stórfrétt!

thumb.php-2.jpeg

Það er með mikilli gleði og stolti að stjórn FHI tilkynnir að okkar eigin Hallgrímur Friðgeirsson hafi tekið sæti í stjórn ECIA sem eru Evrópusamtök Innanhússarkitekta, en aðalfundur þeirra samtaka var einmitt haldinn hér á landi í september.

Við óskum Halla góðs gengis með stjórnarsetuna og við vitum að hann verður okkur hinum félögunum góður málsvari á alþjóðlegum vettvangi. Eins má geta að Halli tók við stjórnarformennsku Hönnunarmiðstöðvar nú í vor og er hann þar sem fulltrúi okkar í FHI.

Aðalfundur ECIA

Það er með ánægju að stjórn FHI kynnir aðalfund Evrópuráðs innanhússarkitekta sem verður haldinn að Kolsstöðum í Borgarfirði laugardaginn 11.september. 

Von er á annan tug stjórnarmeðlima til landsins hvaðanæva úr heiminum og er dagskráin þétt setin dagana 9. til 12. september.  Meiri upplýsingar eru að finna á www.ecia.net.

Aðalfundur fhi

Aðalfundur FHI var haldinn í Hönnunarmiðstöð Íslands fimmtudaginn 27 maí.

Viðstaddir voru 17 félagar sem telst nokkuð góð mæting. Kosin var ný stjórn og hana skipa Íva Rut Viðarsdóttir formaður, Helga Sigurbjarnadóttir og Dóra Hansen. Varamaður í stjórn er Hallgrímur Friðgeirsson.

Við óskum nýrri stjórn velfarnaðar í starfi og þökkum fráfarandi stjórn fyrir frábærlega unnin störf!

SURTUR - Nýr stóll eftir Emilíu

thumb.php.png

Á www.contemporist.com þá er fjallað um nýjustu afurð iðnhönnuðarins Emilíu Borgþórsdóttur - "lounge" stóll sem heitir Surtur enda er hönnuðurinn ættaður úr Vestmannaeyjum.

Hún sýndi stólinn á hönnunarsýningunni ICFF sem haldin var í NYC dagana 14-18. maí

Skemmtileg umræða um stólinn og fleiri myndir hér:
http://www.contemporist.com/2010/05/17/the-surtur-chair-by-emilia-borgthor/

Aðalfundur fhi

Aðalfundur fhi verður haldinn fimmtudaginn 27. Maí, kl. 17:30 að Vonarstræti 4b, í húsnæði Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Dagskrá fundarins er svohljóðandi:

 1. Skýrslu stjórnar félagsins um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári
 2. Skýrslur nefnda félagsins 
 3. Endurskoðaða reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár 
 4. Ákvörðun árgjalds, gjalddaga og reikningsskoðanda
 5. Kjör stjórnar og varamanna
 6. Kjör nefnda til eins árs 
 7. Lagabreytingar 
 8. Önnur mál 

Kosning eftirfarandi atriða:

 • Tillaga um sameiningu AÍ, FÍLA & FHI.
 • Mál HMÍ yfirfarin ásamt Hönnunarmars.
 • Tillaga FÍT um sameiginlegan starfsmann.
 • ECIA, Evrópusamtökin, haustfundur og stjórnarseta.
 • Stafsárið 2009-2010 yfirfarið.

Allir félagsmenn, gamlir sem nýir, hjartanlega velkomnir!
Léttar veitingar verða í boði.
 

F.h. stjórnar FHI
Hallgrímur Friðgeirsson formaður.