Breyting á lögum um mannvirki

Breyting á lögum um mannvirki

Þann 8. júní sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingar á lögum um mannvirki nr. 160/2010 en frumvarpið var lagt fram 6. febrúar sl. Lögin voru birt í Stjórnartíðindum 25. júní 2018 og tóku gildi frá og með þeim degi. 
Með breytingunni er heimilað að séruppdrættir vegna mannvirkjagerðar séu lagðir fram í síðasta lagi áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst. Sett var nýtt ákvæði í lögin um ábyrgð og innra eftirlit hönnuða, skulu þeir fara yfir eigin verk og athuga hvort þau samræmist lögum og reglugerðum áður en hönnunargögn eru lögð inn til samþykktar hjá byggingarfulltrúa. 

Ný vefsíða fhi

Ný vefsíða Félags húsgagna- og innanhússarkitekta hefur nú verið opnuð. Undirbúningur fyrir gerð nýrrar vefsíðu hófst eftir að ný stjórn tók til starfa í apríl mánuði síðastliðnum. Gamla vefsíða fhi var komin verulega til ára sinna og fullnægði ekki tæknikröfum nútímans um gott aðgengi í mismunandi gerðum tækja og hafði ekki verið uppfærð í langan tíma. Nýja vefsíðan er nú einfaldari og þægilegri í notkun og hún er aðgengileg í öllum gerðum tækja. 

Markmið með þessari nýju vefsíðu er að bæta til muna aðgengi að upplýsingum um félagið og frekari upplýsingar fyrir félagsmenn fhi, nemendur sem hyggja á nám erlendis og hönnuði sem leita sér starfsréttinda. 

Með nýjum samningi á milli félaga sem eiga Hönnunarmiðstöð verður sett kapp í gerð nýrrar sameiginlegrar vefsíðu þar sem hvert félag fær sína gátt og mun Hönnunarmiðstöð standa fyrir gerð þeirrar síðu sem vonandi fer í loftið á næsta ári. 

Á meðan munum við halda uppi okkar vefsíðu ásamt fleiri miðlum þar sem við miðlum helstu fréttum sem snúa að félaginu og félagsmönnum sem og að betrumbæta allar upplýsingar um starfsemi og hlutverk húsgagna- og innanhússarkitekta ásamt gagnlegum upplýsingum um fagið.

Meðal nýjunga á vefsíðunni er skráningarhnappur þar sem nú er hægt að skrá sig í félagið beint í gegnum vefsíðuna, bættar upplýsingar á umsókn um lögverndað starfsheiti og upplýsingar aðgengilegar um hlutverk og starfsemi félagsins. Unnið er að því að bæta inn efni og upplýsingum.

Allar ábendingar um hvað betur megi fara á nýju vefsíðunni eru vel þegnar og hvetjum við fólk til að senda tölvupóst á fhi@fhi.is ef það er með einhverjar ábendingar eða spurningar.

Stjórn fhi
Rósa, Vala og Sturla 

Ný stjórn Félags húsgagna- og innanhússarkitekta

stjórn fhi 2018.jpg

Þann 23.apríl síðastliðinn var haldinn félagsfundur fhi í húsakynnum Hönnunarmiðstöðvar að Austurstræti 2. Á fundinum var ný bráðabirgða stjórn félagsins kosin til eins árs. Í stjórninni sitja 3 aðilar eins og lög félagsins gera ráð fyrir ásamt varamanni. 

Stjórn félagsins var kosin einróma af þeim 21 félagmönnum sem mættir voru á fundinn og við tók ný stjórn skipuð þannig: 

Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, formaður
Valgerður Á. Sveinsdóttir, ritari
Sturla Már Jónsson, gjaldkeri. 

Dóra Hansen var að lokum kosin varamaður af stjórn en hún situr einnig í stjórn Hönnunarmiðstöðvar fyrir hönd fhi.

Tímaritið HA

MG_6183_net.jpg

Nýtt tímarit um hönnun og arkitektúr kemur út í fyrsta sinn á HönnunarMars 2015. Tímaritið ber nafnið HA og er gefið út af níu fagfélögum undir formerkjum Hönnunarmiðstöðvar Íslands, en því er ætlað að kynna og sýna fram á mikilvægi góðrar hönnunar. 

Hönnunarsenan á Íslandi hefur beðið í ofvæni eftir útgáfu nýja tímaritsins enda brýn þörf á vettvangi fyrir gagnrýna umræðu um hönnun og arkitektúr hér á landi. Ítarlegar þverfaglegar greinar verða í bland við fasta liði og mun tímaritið höfða jafnt til fagfólks og áhugafólks um hönnun.
Enda meginmarkmið hins nýja tímarits að efla þekkingu á hönnun og arkitektúr og sýna áhrif þeirra og mikilvægi.

HA kemur út í fyrsta sinn á HönnunarMars, en það mun koma út tvisvar á ári og verður bæði á íslensku og ensku.

Áhugasamir geta flett nýja tímaritinu á DesignTalks og á opnunarathöfn HönnunarMars 2015 næstkomandi fimmtudag í Hörpu.

Tímaritið verður einnig til sölu í verslunum EpalSpark Design og  Pennanum

 

Aðalfundur fhi

Reykjavík, 18.maí 2011

Kæru Félagsmenn

Við minnum á aðalfund félags húsgagna og innanhússarkitekta, sem haldinn verður fimmtudaginn 26.maí kl 17:30, í Vonarstræti 4b - Hönnunarmiðstöð Íslands.
 

Dagskrá aðalfundar

Almenn aðalfundarstörf og önnur mál

  1. Kosning fundarstjóra og ritara.
  2. Skýrsla stjórnar, störf og framkvæmdir á liðnu ári.
  3. Skýrsla réttindanefndar.
  4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  5. Kosið í stjórn félagsins. 

Iva Rut formaður, Helga Sigurbjarnardóttir, gjaldkeri og Hallgrímur, varamaður gefa kost á endurkjöri. Óskað er eftir einu framboði í stjórn.

Kosið í nefndir félagsins. 

Óskað er eftir framboði í dagskránefnd. Dagskránefnd heldur m.a utan um þáttöku fhi í Hönnunarmars 2012.

Kosið í réttindanefnd.

Skuldastaða félagsins vegna lögfræðikostnaðar.

Skuld fhi við Einar Pál Tamini vegna málflutnings og ráðgjafar. Samtals 1.183.234 með vsk. Tillaga að leið til lausnar:  Hækkun félagsgjalda og eða lántaka.

Ákvörðun ársgjalds.

Tillaga: Stjórn leggur til að ársgjald verði hækkað í 20.000kr, sem greiðist tvisvar á ári.  

Hönnunarmars 2012.

Umræða og vangaveltur um þáttöku og með hvaða móti.

Umræða um hugsanlega sameiningu arkitektafélaganna, ai, fhi og fíla.

Iva  Rut segir frá sænsku leiðinni og stöðu viðræðna.

Annað

Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að fara saman út að borða eftir aðalfund, látið vita í netfang ivarut@husa.is. Fyrirhugað er að fara á Tapasbarinn.

Kærar kveðjur,

Fh. Stjórnar
Íva Rut Viðarsdóttir Formaður

 

10+ á Hönnunarmars

8e24c3bf762da1aa.jpg

Fhi kynnir 10+ húsgagnasýninguna  á HönnunarMars 2011

Húsgagnasýningin 10+ var fyrst haldin  á síðasta ári og vakti mikla athygli og ljóst er að hún er komin til að vera.  Fhi, félag húsgagna- og innanhússarkitekta, ákvað því að endurtaka leikinn með það að markmiði að gera enn betur en síðast. 

Þátttakendur eru úr mörgum hönnunarfélögum en einmitt það gerir sýninguna fjölbreytta og spennandi. Mikill kraftur og hugmyndaauðgi er í íslenskri húsgagnahönnun um þessar mundir og við kynnum til leiks það nýjasta . Þátttakendur eru  úr fagfélögum arkitekta, vöruhönnuða, innanhússarkitekta, leirlistar, grafískra hönnuða og textílhönnuða. 

Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (þá Félag húsgagnaarkitekta, fha) var stofnað árið 1955 og er þar með  elsta fagfélag hönnuða á Íslandi. Stofnfélagar fhi voru helstu frumkvöðlar í íslenskri húsgagnahönnun og húsgagnaframleiðslu. Fhi hefur mikla trú á íslenskri húsgagnaframleiðslu og á sér þá ósk að hún eflist og verði stór atvinnugrein. Markmið með 10+ húsgagnasýningunni er að kynna íslenska hönnun og hvetja til aukinnar framleiðslu á húsgögnum eftir íslenska hönnuði.  Saman getur íslensk hönnun og íslensk framleiðsla orðið nýskapandi hreyfiafl.

Sýningin er í Grandagarði 16

Sýningarstjóri: Dóra Hansen

Sýningarhönnuður: Ómar Sigurbergsson.

Hönnuður  sýningaskrár:  Elísabet Jónsdóttir

Stockholm Design Week

e0eee3cafd9af081.jpg

Á fjórða tug íslenskra hönnuða og arkitekta sýna verk sín á kaupstefnunni Stockholm Furniture Fair og hönnunarvikunni Stockholm Design Week sem hefjast í Stokkhólmi 7. febrúar nk. 

Kaupstefnan er ein af þeim stærstu í Evrópu og óteljandi hönnunarviðburðir glæða stræti Stokkhólms óvæntu lífi. Gríðarmörg tækifæri felast í markvissri þátttöku. 


Hönnunarmiðstöð Íslands varð þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að setja sýninguna
Icelandic Contemporary Design upp á Stockholm Furniture Fair en hún var hönnuð sem farandsýning til að kynna íslenska hönnun utan landssteinanna og opnaði fyrst á Listahátíð í Reykjavík 2009. Rúmlega tuttugu hönnuðir og arkitektar eiga verk á sýningunni. Ferðalag sýningarinnar er liður í að færa íslenska hönnunarsenu nær þeirri skandinavísku sem þekkt er að verðleikum og viðurkennd um heim allan. 

Auk sýningarinnar er að finna á kaupstefnunni hönnun frá íslensku fyrirtækjunum Arkiteó,FurniBloomLighthouse og Sýrusson

Aurum opnar sýningu á skartgripum og borðbúnaði í hinu smáa en virta hönnunargallerýi, Gallery Pascale og iðnhönnuðurinn Sigga Heimis sem nýverið sýndi verk sín í Hönnunarsafni Íslands, tekur þátt í samsýningu um 20 virtra hönnuða íBilogiska Museet

Ískaldir jöklar, lindavatn og hreinn krækiberjasafi stefna nú hraðbyri til Svíaveldis og eru framlag Brugghúsins Mjöðurs í Stykkishólmi sem ásamt Icelandic Water Holdings og Íslenskri hollustu munu gefa tóninn í móttökum sem sendiherra Íslands í Stokkhólmi býður til í samstarfi við Hönnunarmiðstöð, við tvö tækifæri. 

Móttökunum er ætlað að styrkja það tenglsanet sem þegar hefur verið unnið að undanfarin ár og til að mynda ný sambönd sem nýst geta íslensku hönnunarsenunni hvað varðar útflutning, umfjöllun og samstarf. 

Allar nánari upplýsingar um sýningarnar og viðburðina veitir Kristín Gunnarsdóttir kristin@honnunarmidstod.is í síma 771 2200 og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar í síma 699 3600.

Úrslit hönnunarsamkeppni Hörpu tónlistarhúss og Portus

Fimmtudaginn 25. nóvember voru tilkynnt úrslit í hönnunarsamkeppni um húsgögn í almenningsrými í Hörpu. Samkeppnin var opin íslenskum hönnuðum og arkitektum og var haldin í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. 

Verðlaunin, að verðmæti ein milljón króna, hrepptu þær Kristín Aldan Guðmundsdóttir og Helga Sigurbjarnadóttir sem eru báðar innanhúsarkitektar FHÍ. Skilyrði í samkeppninni var að húsgögnin yrðu framleidd hér á landi og samstarfsaðilar þeirra um framleiðslu húsgagnanna eru GÁ húsgögn, Stjörnustál, Pelco og Pólýhúðun. 

 Helga  Sigurbjarnadóttir og Kristín Aldan Guðmundsdóttir við hlið vinningstillögunnar. Mynd: Hönnunarsafn Íslands

Helga  Sigurbjarnadóttir og Kristín Aldan Guðmundsdóttir við hlið vinningstillögunnar.
Mynd: Hönnunarsafn Íslands

Í umsögn frá dómnefnd kemur fram að vinningshugmyndin byggi á fágaðri og svipmikilli hugmynd og falli afar vel að sterkum karakter hússins með hreyfanlegum formum sem bjóða upp á margvíslega notkun. Styrkur tillögunar felist ekki síst í einfaldleika hennar og sveigjanleika. Form og efnistök sýni að tekið sé tillit til hins mikla fjölda sem muni fara um Hörpu og gefi auk þess létt og leikandi yfirbragð í almenningsrýmin þar sem gestir geti tyllt sér á fjölbreytileg húsgögnin jafnt að degi til sem á kvöldin. Hugsað sé fyrir öllum aldursflokkum, ólíkum þörfum eftir viðburðum og að flókin úrlausnarefni séu leyst á hagkvæman og aðlaðandi hátt. 

Verðlaunaafhendingin átti sér stað í Hörpu en húsið opnar í maí næstkomandi. 

Einnig fengu tvær tillögur til viðbótar sérstaka viðurkenningu. Sú fyrri var frá Dóru Hansen, Heiðu Elínu Jónsdóttur og Þóru Birnu Björnsdóttur innanhúsarkitektum FHÍ en tillagan þótti djörf og vönduð með spennandi vali lita og efna. Sú síðari var frá Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur og Oddgeir Þórðarsyni innanhúsarkitektum FHÍ hjá Go Form ehf en tillagan þótti glæsileg og bjóða upp á mikla möguleika með einföldum og afgerandi formum.  Athygli vekur að vinningstillögurnar eru allar unnar af félögum í FHÍ sem ber vott um hversu öflugir meðlimir félagsins eru.

Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður rekstrarfélagsins Ago sagði í ræðu sinni við afhendinguna í dag að það væri gleðilegt að sjá hinn mikla metnað og hugmyndaauðgi sem íslenskir hönnuðir byggju yfir og tillögurnar bæru vitni um. 

Alls tuttugu og þrjár tillögur bárust í samkeppnina en að henni var staðið af Eignarhaldsfélaginu Portus í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. 

Í dómnefnd sátu Osbjörn Jacobsen arkitekt frá Henning Larsen Architects, tilnefndur af Portusi, Soffía Valtýsdóttir, arkitekt frá Batteríinu, tilnefnd af Portusi, Katrin Ólína, hönnuður, frá Félagi vöruhönnuða tilnefnd af Hönnunarmiðstöð, Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaartikekt, frá Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð og Þórunn Sigurðadóttir stjórnarformaður Ago, tilnefnd af Portusi sem gegnir formennsku. 

Hægt verður að skoða allar tillögurnar á næstunni á sýningu í Hönnunarsafni Íslands.